LÝSINGAR Á NÁMSLOKUM Í FRAMHALDSSKÓLA

Hér eru birtar samantektir á lýsingum námsloka í framhaldsskóla. Þrjár tegundir námsloka eru skilgreindar, það er framhaldsskólapróf, próf til starfsréttinda og stúdentspróf. Önnur lokapróf og viðbótarnám við framhaldsskóla eru safnheiti yfir ýmis námslok sem ekki falla undir fyrrnefndar tegundir námsloka. Sum námslok geta verið skilgreind á mismunandi hæfniþrepum, önnur ekki.

Framhaldsskólapróf

Umfang náms til framhaldsskólaprófs fer eftir hæfniviðmiðum námsins, en skal alltaf vera á bilinu 90-120 fein. Námslokin geta verið skilgreind á hæfniþrepi eitt eða tvö. Ef vilji er til að námsbraut ætluð nemendum með þroskahömlun ljúki með framhaldsskólaprófi, gilda sömu reglur um umfang.

Framhaldsskólaprófi er ætlað að koma til móts við þá áherslu að nemendur njóti fræðslu-skyldu til 18 ára aldurs og að framhaldsskólarnir bjóði upp á menntun sem henti þörfum hvers og eins. Einnig er því ætlað að koma til móts við þarfir nemenda sem ekki hyggja á önnur námslok. Þannig getur skóli hvort sem er tengt framhaldsskólapróf við lok skilgreindrar námsbrautar eða tengt það annarri þátttöku nemenda skólanum, sem sniðin er að einstaklingsbundnum þörfum þeirra. Þó skulu lokamarkmið námsins í öllum tilvikum vera skýr.

 

Hæfniþrep Helstu einkenni
1
 • Innihald: Námið felur í sér almennan undirbúning undir áframhaldandi nám eða störf í atvinnulífinu sem ekki krefjast mikillar sérhæfingar og eru unnin undir stjórn eða eftirliti annarra.
 • Skipulag: Námið getur falið í sér bóknám, listnám og/eða starfsnám og verið skipulagt sem heildstæð námsbraut eða tengst námsbrautum skóla með ýmsu móti. Það getur falið í sér starfskynningu eða þjálfun á vinnustað.
 • Umfang: 90-120 framhaldsskólaeiningar.
 • Réttindi: Að loknu framhaldsskólaprófi á fyrsta hæfniþrepi gefst einstaklingi kostur á ófaglærðum störfum eða frekara námi í framhaldsskóla.
2
 • Innihald: Námið einkennist af fremur stuttri sérhæfingu, sem miðar einkum að faglegum undirbúningi undir frekara nám eða störf sem krefjast þess að starfsmaðurinn geti sýnt ábyrgð og sjálfstæði innan ákveðins ramma og/eða undir yfirstjórn annarra.
 • Skipulag: Námið getur falið í sér bóknám, listnám og/eða starfsnám, verið skipulagt sem heildstæð námsbraut eða tengst námsbrautum skólans með ýmsu móti. Það getur falið í sér þjálfun á vinnustað.
 • Umfang: 90-120 framhaldsskólaeiningar.
 • Réttindi: Að loknu framhaldsskólaprófi á öðru hæfniþrepi gefst einstaklingi kostur á störfum sem ekki kalla á mikla sérhæfða þekkingu, framhaldsnámi eða mati inn á námsbrautir framhaldsskólans.

 

Próf til starfsréttinda

Próf til starfsréttinda eru skilgreind sem námslok af námsbraut sem veitir löggilt starfsréttindi eða veitir nemendum heimild til að þreyta sveinspróf í löggiltri iðngrein. Þessi námslok geta verið skilgreind á hæfniþrep tvö, þrjú eða fjögur.

Hæfniþrep Helstu einkenni
2
 • Innihald: Námið einkennist af fremur stuttri sérhæfingu sem miðar að faglegum undirbúningi undir störf sem krefjast þess að starfsmaðurinn geti sýnt ábyrgð og sjálfstæði innan ákveðins ramma.
 • Skipulag: Námið er skipulagt sem starfsnám og felur í sér þjálfun á vinnustað.
 • Umfang: 60-120 framhaldsskólaeiningar.
 • Réttindi: Að loknu prófi til starfsréttinda á öðru hæfniþrepi gefst einstaklingi kostur á frekara námi eða störfum sem krefjast löggiltra starfsréttinda. Áframhaldandi nám felur í sér sérhæfingu innan starfsnáms eða mat inn á aðrar námsbrautir framhaldsskólans.
3
 • Innihald: Námið einkennist af sérhæfðum undirbúningi undir lögvarin störf sem krefjast þess að starfsmaðurinn geti unnið sjálfstætt, borið ábyrgð á skipulagi og úrlausn verkefna og metið eigin störf.
 • Skipulag: Námið er skipulagt sem starfsnám og felur í sér þjálfun á vinnustað.
 • Umfang: 180-240 framhaldsskólaeiningar.
 • Réttindi: Að loknu framhaldsskólaprófi á þriðja hæfniþrepi gefst einstaklingi kostur á frekara námi eða störfum sem krefjast löggiltra starfsréttinda. Áframhaldandi nám felur í sér aukna faglega sérhæfingu og þróun á starfsvettvangi á fjórða hæfniþrepi, viðbót til stúdentsprófs og nám á háskólastigi eða mat inn á aðrar brautir framhaldsskólans.
4
 • Innihald: Námið einkennist af aukinni sérhæfingu og/eða útvíkkun sérhæfingar í tengslum við stjórnun, leiðsögn, þróun og/eða nýsköpun.
 • Skipulag: Námið er skipulagt sem starfsnám eða starfstengt nám.
 • Umfang: 30-120 framhaldsskólaeiningar.
 • Réttindi: Að loknu prófi til starfsréttinda á fjórða þrepi gefst einstaklingi kostur á frekara námi á fjórða þrepi, möguleika á ábyrgðarstörfum í atvinnulífinu eða störfum sem krefjast löggiltra starfsréttinda. Námið má í vissum tilvikum meta inn á námsbrautir á háskólastigi.

 

Stúdentspróf

Stúdentspróf miðar að því að undirbúa nemendur undir háskólanám hérlendis og erlendis. Námstími til stúdentsprófs getur verið breytilegur milli námsbrauta og skóla en framlag nemenda skal þó aldrei vera minna en 200 fein. Námslokin eru í öllum tilvikum skilgreind á hæfniþrep þrjú. Inntak náms til stúdentsprófs er háð hæfniviðmiðum námsbrautarinnar en fer einnig eftir því hvers konar undirbúning viðkomandi námsbraut veitir fyrir háskólanám. Uppistaða námsins getur því falið í sér bóknám, listnám eða starfsnám.

Um nám til stúdentsprófs gilda sérstakar reglur auk ákvæða um lágmarkseiningafjölda. Þær lúta að hæfnikröfum í kjarnagreinum og öðrum greinum auk þeirra reglna sem gilda almennt um innihald og uppbyggingu námsbrauta með námslok á þriðja hæfniþrepi.

Hæfniþrep Helstu einkenni
3
 • Innihald: Námið einkennist af sérhæfðum undirbúningi undir háskólanám. Eftir námslok á þriðja þrepi á nemandi að geta unnið sjálfstætt, borið ábyrgð á skipulagi og úrlausn verkefna og metið eigin störf.
 • Skipulag: Námið er alla jafnan skipulagt sem bóknám en getur falið í sér verklegt nám, starfsnám og/eða listnám.
 • Umfang: 200-240 framhaldsskólaeiningar.
 • Réttindi: Að loknu námi til stúdentsprófs gefst einstaklingi kostur á frekara námi á háskólastigi eða störfum í atvinnulífinu sem ekki krefjast löggiltra starfsréttinda. Stúdentsprófið tryggir ekki sjálfkrafa aðgang að öllu námi á háskólastigi. Einstakir háskólar eða háskóladeildir geta sett ýmsar sérkröfur sem nemendur þurfa einnig að uppfylla og í sumum tilvikum geta nemendur þurft að gangast undir inntökupróf.

 

Önnur lokapróf

Námslok af námsbrautum sem ekki lýkur með stúdentsprófi, prófi til starfsréttinda eða framhaldsskólaprófi flokkast sem önnur lokapróf. Þarna er um að ræða margs konar námsbrautir sem ýmist eru skilgreindar á hæfniþrep eitt, tvö eða þrjú. Hæfniviðmið námsbrautanna segja til um sérhæfingu sem getur fallið undir starfsnám, listnám, bóknám eða almennt nám.

Hæfniþrep Helstu einkenni
1
 • Innihald: Námið felur í sér almennan undirbúning undir áframhaldandi nám eða störf í atvinnulífinu sem ekki krefjast mikillar sérhæfingar og eru unnin undir stjórn eða eftirliti annarra.
 • Skipulag: Námið er ýmist skipulagt sem bóknám, listnám eða starfsnám og getur þá falið í sér starfskynningu eða þjálfun á vinnustað.
 • Umfang: 30-120 framhaldsskólaeiningar, en allt að 240 fein. fyrir nemendur með þroskahömlun.
 • Réttindi: Að loknu námi á fyrsta hæfniþrepi gefst einstaklingi kostur á ófaglærðum störfum eða frekara námi í framhaldsskóla.
2
 • Innihald: Námið einkennist af fremur stuttri sérhæfingu sem miðar einkum að faglegum undirbúningi undir frekara nám eða störf sem krefjast þess að starfsmaðurinn geti sýnt ábyrgð og sjálfstæði innan ákveðins ramma og/eða undir yfirstjórn annarra.
 • Skipulag: Námið er ýmist skipulagt sem bóknám, listnám eða starfsnám og getur þá falið í sér þjálfun á vinnustað.
 • Umfang: 60-120 framhaldsskólaeiningar.
 • Réttindi: Að loknu námi á öðru þrepi gefst einstaklingi kostur á frekara námi eða möguleikar á störfum í atvinnulífinu og fer það eftir hæfniviðmiðum námsins hversu sérhæfð störf eru í boði. Nám að loknu öðru þrepi krefst meiri sérhæfingar innan starfsnáms eða mats inn á aðrar brautir framhaldsskólans.
3
 • Innihald: Námið einkennist af sérhæfðum undirbúningi undir sérhæft starfsnám og/eða listnám. Eftir námslok á þriðja þrepi á nemandi að geta unnið sjálfstætt, borið ábyrgð á skipulagi og úrlausn verkefna og metið eigin störf.
 • Skipulag: Námið er ýmist skipulagt sem bóknám, listnám eða starfsnám og getur falið í sér þjálfun á vinnustað.
 • Umfang: 150-240 framhaldsskólaeiningar.
 • Réttindi: Að loknu námi á þriðja hæfniþrepi gefst nemanda kostur á frekara námi eða störfum sem krefjast löggiltra starfsréttinda. Áframhaldandi nám felur í sér aukna faglega sérhæfingu og þróun á starfsvettvangi á fjórða hæfniþrepi, viðbót til stúdentsprófs og nám á háskólastigi eða mat inn á aðrar brautir framhaldsskólans.